Matreiðsla

Með auknum hótel- og veitingarekstri í kjölfar þéttbýlismyndunar, bættra samgangna og aukinnar ferðamennsku varð til stétt matreiðslumanna á fyrri helmingi 20. aldar.

Matreiðslumaður starfar þar sem seldar eru veitingar í atvinnuskyni, s.s. á hótelum, veitingahúsum, kaffihúsum og farþegaskipum. Einnig þar sem matreiðsla er þjónustuþáttur við aðra starfsemi eins og í mötuneytum, á fraktskipum og á heilbrigðisstofnunum.

Starfsumhverfi matreiðslumanna er í vaxandi mæli fjölþjóðlegt. Starf matreiðslumanns felst í meginatriðum í því að matreiða allan mat. Hann tekur á móti hráefni, meðhöndlar það til geymslu eða vinnur það til matreiðslu og matreiðir á viðeigandi hátt. Hann vinnur eftir uppskriftum, semur uppskriftir og setur saman matseðla fyrir hin ýmsu tilefni með hliðsjón af faglegum kröfum og hagkvæmni. Þá vinnur matreiðslumaður við þróun á tilbúnum réttum og öðrum afurðum til manneldis og sinnir sérhæfðum verkefnum svo sem við sýningar og kynningar á réttum, matvörum og tækjum til matreiðslu. Matreiðslumaður hefur samstarf við fjölmargar starfsstéttir svo sem framreiðslumenn, bakara, kjötiðnaðarmenn og sölumenn.