Kjötiðn

Aðferðir við kjötvinnslu hafa þróast með mannkyninu öldum saman og vinnubrögð og uppskriftir gengið í arf mann fram af manni, frá meistara til lærlings allt til vorra daga.

Hérlendis var kjötmeti lengi framanaf nær eingöngu framleitt til heimilisnota og vöruskipta en með tilkomu frystitækni um aldamótin 1900 urðu þáttaskil. Eiginlegur kjötiðnaður á Íslandi hófst með stofnun kjötvinnslustöðvar Sláturfélags Suðurlands árið 1907.

Kjötiðnaðarmaður starfar við alla kjötvinnslu og í kjötdeildum verslana þar sem hann sér m.a. um uppröðun í kjötborð, sölu á matvælum og leiðsögn við neytendur. Hann starfar einnig í sláturhúsum og við sölu og markaðssetningu á kjöti og matvælum, við sölu umbúða, krydd/hjálparefna, véla og tækja og við opinbera þjónustu. Á öllum þessum stöðum vinnur kjötiðnaðarmaðurinn að gæðastjórnun og innra eftirliti matvælafyrirtækja. Þá koma kjötiðnaðarmenn að sérhæfðum verkefnum s.s. kennslu, ráðgjöf, kynningar- og fræðslumálum og vinnu á rannsóknarstofum. Kjötiðnaðarmenn eiga í daglegum samskiptum við fjölmarga aðila s.s. neytendur, atvinnurekendur og opinbera eftirlitsaðila og aðrar starfsstéttir, s.s. matreiðslu-, framreiðslumenn, bakara, sölumenn.