Framreiðsla

FramreiðslumaðurTil að finna rætur framreiðslu þarf að fara aftur um árþúsundir. Framreiðslustarfið varð til í löndum þar sem lífsgæði voru mikil en þá var enn steinöld. Framreiðsla sem fag var fyrst kennd hér á landi af dönskum framreiðslumönnum í upphafi þessarar aldar. Árið 1927 var Stéttarfélag Matsveina-og veitingaþjónafélag Íslands stofnað. Snemma beittu Samtök matreiðslu- og framreiðslumanna sér fyrir bættri menntun fagmanna sinna og að fá starfsgreinarnar viðurkenndar sem sérstakar iðngreinar, en það tókst árið 1941. Næsta skref í skipulögðu námi var stigið árið 1945 er haldið var sveinspróf í framreiðslu að Hótel Valhöll á Þingvöllum.

Framreiðsla er víðtækt orð og nær yfir marga starfsþætti sem framreiðslumaður þarf að kunna skil á. Framreiðslustarfið er fjölbreytt og krefjandi það krefst færni í vinnuskipulagi og samvinnu, þekkingar á hráefni, matreiðsluaðferðum og neysluvenjum,  mikillar færni í framreiðsluháttum og aðferðum, ásamt þekkingar á hinum ýmsu réttum og vínum. Starfið krefst mannþekkingar, hæfileika til að umgangast fólk og lipurð í mannlegum samskiptum. Gestir veitingahúsa koma úr öllum stéttum samfélagsins frá hinum almenna borgara til þjóðhöfðingja og þarf framreiðslumaðurinn að hafa kunnáttu og þekkingu til að uppfylla kröfur þessara mismunandi þjóðfélagshópa.

Framreiðslustarfið er jafnframt skapandi og gefandi þar sem stór hluti starfsins felst í samskiptum við fólk.  Starfið reynir á frumkvæði framreiðslumannsins til að skapa þær aðstæður sem óskað er eftir við mismunandi tilefni. Framreiðslumaðurinn er andlit veitingastaðarins og er lykilpersóna í starfsemi hótelsins og/eða veitingahússins þegar kemur að því að gestir meti gæði staðarins.

Samantekt Baldur Sæmundsson áfangastjóri verknáms