Fagfræði bakara

Babylon
Babylon

Brauðgerð er ein elsta iðja sem til er. Af margvíslegum heimildum sem fundist hafa um brauðgerð í heiminum má til dæmis ráða að brauð hafa verið bökuð fyrir um 5000 árum síðan, bæði í hinni gömlu Babylon og einnig í Kína.

Trúlega hefur þó brauðgerð hafist miklu fyrr eða tiltölulega skömmu eftir að menn fóru að nota korn fyrir fæðu, en það mun hafa gerst á mismunandi tíma á ýmsum stöðum á jörðinni. Líklegt er að fyrsti baksturinn hafi átt sér stað fyrir tilviljun eins og svo margar af merkustu uppgötvunum mannkynsins. Hugsanlegt er að einhver hafi verið að sjóða korn eða mjöl í vatni og sletta hafi fallið á heita hlóðasteina. Þannig gæti fyrsti deigklattinn hafa orðið til. Væntanlega hefur þetta þótt góð tilbreyting frá einhæfum korngrautnum og síðan hefur þróunin hafist.  Af ýmsum heimildum sést líka að bakstur var blómleg iðngrein í Rómaborg á árunum 171 – 168 f. Kr.

Þangað hafði baksturslistin borist frá Grikklandi þrátt fyrir að Rómverjar teldu að það hefði verið skógargoðið Pan sem fyrstur hefði kennt þeim bakstur. Rómverjar kölluðu því brauð sín panis, það orð er þekkt í íslensku máli sem hluti af orðinu marsipan en það þýðir Markúsarbrauð.

Þær korn- og mjöltegundir sem talið er að Egyptar hafi aðallega notað við bakstur eru hveiti, bókhveiti, bygg og dúrrahirsi. Það virðist einnig vera ljóst að hveitibrauð var ríkra manna fæða hjá Egyptum. Á ýmsum egypskum fornleifum sjást myndir af brauðum. Oftast er um að ræða litla kringlótta hleifa, en einnig virðast hafa verið til langir sívalningar, þaktir að ofan með fræi, líkt og það sem við þekkjum sem birkibrauð.

Kennslubók og handbók í bakaraiðn